Meðferð við slitgigt í hné


Fyrsta og mikilvægasta skrefið er að ráðfæra þig við lækni varðandi lífsstíl og hreyfingu sem þú verður af vegna sársauka í hnjám. Meðferðin sem þú velur ætti að falla að þínum lífsstíl og gera þér kleift að stunda þá hreyfingu sem þú hefur mesta ánægju af. Í mörgum tilvikum er ekki þörf á skurðaðgerð til að losna við sársauka við hreyfingu.

Margir kjósa að meðhöndla einkenni slitgigtar, eins og sársauka í hnjám við göngu, stirðleika og bólgu í hnjáliðum, með lyfjum til inntöku, stungulyfjum og skurðaðgerð. Hins vegar er annar kostur í boði. Hnéspelkur fyrir slitgigt í hnjám eru ekki jafnmikið inngrip og kosta mögulega minna en aðrar meðferðir. Þar að auki eru þær einfaldar, öruggar og hafa sannað virkni sína.

Kynntu þér nánar þau meðferðarúrræði sem eru í boði.

“Jafnvæg meðferðaráætlun getur dregið úr sársauka og aukið hreyfigetu og gert þér kleift að vera virkari en nokkru sinni áður. Leitaðu ráða hjá lækni um hvort hnéspelka fyrir slitgigt frá Össuri sé valkostur sem þú getur prófað áður en skurðaðgerð er íhuguð.”

Skurðaðgerð á hné


Skurðaðgerð er algeng niðurstaða hjá mörgum sem þjást af slitgigt í hné. Á fyrstu stigum gangast sjúklingar oft undir einfaldar aðgerðir til að hreinsa hnéð og fjarlægja brot eða skera skemmdir af brjóskinu. Framþróun í skurðlækningum skilar sér í því að slíkar aðgerðir er tiltölulega auðvelt að framkvæma með liðspeglun. Skurðlæknar leggja áherslu á að fækka skurðaðgerðum, þar sem sýnt hefur verið fram á að endurteknar skurðaðgerðir auka líkurnar á myndun slitgigtar.

Oft breytist staða fótleggsins hjá fólki með slitgigt í hné. Slíkt kemur oft fram sem sveigður fótleggur (innsveigður leggur) eða sem innskeif staða (innskeift hné). Stundum er reynt að leiðrétta slíkar breytingar á sveigju með skurðaðgerð, þar sem litlir beinfleygar eru teknir úr fótleggnum til að rétta af stöðu hnésins (beinfleygsnám á sköflungi).

Í mörgum tilvikum er sjúklingum með langt gengna slitgigt boðið upp á gervilið. Það er mjög flókin skurðaðgerð að skipta um hnélið, en er orðin nokkuð algeng. Gerviliðir sem bjóðast í dag endast í 10 til 15 ár og geta auðveldað sjúklingum að hefja dagleg störf á ný sem áður ollu of miklum sársauka.

Spelkur og hlífar


Spelkur og hlífar fyrir hné með gigt eru afar fjölbreyttar, allt frá einföldum hlífum til hátæknilegra spelkna sem stýra hreyfingum hnésins. Yfirleitt kaupa sjúklingar sjálfir hlífar í apótekum eða íþróttavöruverslunum og þær veita sambland af þrýstingi, hita og mjúkum stuðningi. Þannig er hægt að hafa stjórn á sársaukanum með því að minnka bólgur og gera notandann meðvitaðri um hreyfingar og stöðu hnésins.

Stoðtækjasmiðir eða sjúkraþjálfarar á sjúkrahúsum bjóða gjarnan upp á þróaðri hlífar sem eru oft búnar hjörum eða liðum til að styðja við hnéð og bæta jafnvægið.

Eftir því sem tækninni fleygir fram hafa spelkuhönnuðir unnið með spelkur sem veita stuðning og leiðrétta stöðu hnésins, í því skyni að losa um þrýsting á svæðum þar sem slitgigtin er sem mest. Slíkar gerðir spelkna voru hannaðar miðað við liðbandaspelkur sem eru oft notaðar í íþróttum. Hins vegar uppfylltu slíkar spelkur ekki einstaklingsþarfir slitgigtarsjúklinga og þar af leiðandi hafa léttari spelkur verið framleiddar sérstaklega fyrir slitgigt. Slíkar gerðir spelkna eru nú alþekktar og niðurstöður rannsókna benda til þess að þær séu áhrifarík meðferð við slitgigt í hné.

Unloader One og skurðaðgerð á hné


Unloader One spelkan getur seinkað þörfinni á aðgerð til að skipta alveg um hnélið (árafjöldi hefur hvorki verið rannsakaður né staðfestur) og aukið lífsgæði hjá mörgum slitgigtarsjúklingum. Þegar skipt er um hnélið að hluta til eða að öllu leyti verður breyting á líkamshreyfingum til að lengja endingartíma gerviliðarins. Það er ekki að ástæðulausu: Hnéliðir sem skipt er um með skurðaðgerð slitna á um 10 til 15 árum. Síðan verður að framkvæma uppbótarskurðaðgerð, sem er í raun önnur viðamikil skurðaðgerð.

Lyf og stungulyf


Slitgigt er langvinnur sjúkdómur og mjög fá lyf eru í boði til að hafa áhrif á framvindu sjúkdómsins. Lyf eru aðallega notuð til að halda niðri sjúkdómseinkennum í hnénu. Megineinkenni er yfirleitt sársauki og því munu læknar ávísa lyfjum með lágum styrkleika sem fást án lyfseðils á fyrstu stigum sjúkdómsins, eins og parasetamóli og bólgueyðandi kremi (íbúprófenhlaupi).

Slíkt er yfirleitt fullnægjandi til að halda niðri flestum einkennum á fyrstu stigum sjúkdómsins. Hins vegar ættu læknar að ávísa lyfjum með auknum styrkleika til að halda niðri sársaukanum í samræmi við framgang slitgigtarinnar. Íbúprófentöflur og lyf að stofni til úr ópíóðum eru oft notuð en vegna þess að sjúkdómurinn er langvinnur í eðli sínu, hafa sjúklingar mikla tilhneigingu til að fá aukaverkanir vegna slíkra lyfja, eins og magasár, ógleði og lyfjafíkn. Þrátt fyrir að lyf séu notuð við meðferð á hnénu geta þau mögulega haft áhrif á allan líkamann.

Staðbundnar meðferðir eru m.a. inndæling á sterum í liðinn (inndæling á hýalúrón). Slíkar meðferðir eru vel þekktar aðferðir til að meðhöndla slitgigt í hnénu en áhrifin eru mismunandi eftir sjúklingum og þær eru ekki áhrifaríkar hjá öllum.

Mikilvægi hreyfingar


Ekki skal þó draga úr mikilvægi hreyfingar og líkamshreysti. Það er afar mikilvægt að hreyfa sig reglulega bæði til að auka hreyfigetuna og styrkja vöðvana sem verja hnéð. Leitaðu ávallt ráða hjá heilbrigðisstarfsmanni áður en reglubundnar æfingar hefjast.