#WeThe15
Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (International Paralympic Committee/IPC) ásamt fleiri alþjóðasamtökum, s.s. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) o.fl. hefur ákveðið að efna til herferðar sem ber yfirskriftina WeThe15.
Nafn herferðarinnar kemur til vegna þess að 15% af íbúum jarðar eru fatlaðir og samkvæmt því eru 15% Íslendinga með einhverja fötlun, eða tæplega 55 þúsund.
Þetta er ekki auglýsingaherferð heldur er tilgangurinn að búa til nýja hreyfingu sem vekur athygli á fötluðu fólki um allan heim.
#WeThe15 herferðin hefur það markmið að beina athygli að færni og getu fatlaðs fólks og að vekja athygli á að 15% mannkyns er með einhverja fötlun.
Herferðin #WeThe15 hefst 19. ágúst þar sem ætlunin er að lýsa upp með fjólubláum lit, a.m.k. 50 þekkt kennileiti um allan heim og þar með talið verður Perlan og Harpan upplýst fjólublá. Þennan dag eiga líka að birtast greinar og eftirtektarverð viðtöl við ýmsa einstaklinga varðandi þeirra daglega líf sem og þjóðþekkta einstaklinga sem hafa látið málefni fatlaðra sig varða.
Dagsetningin 19. ágúst er valinn sem “undanfari” fyrir Ólympíumót fatlaðra / Paralympics sem hefst í Tokyo þann 24. ágúst þar sem herferðinni verður haldið áfram enda munu augu alheimsins vera á þeim viðburði sem kemur ávallt í kjölfar sjálfra Ólympíuleikanna og vekur stöðugt meira umtal og eftirvæntingu.
Við hvetjum alla til þess að fylgjast með Ólympíumóti fatlaðra á RÚV 24. ágúst til 5. september.