Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2025
Embla Medical hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2025
Embla Medical hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2025. Sveinn Sölvason, forstjóri fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Embla Medical er leiðandi alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki á sviði stoð- og stuðningstækja og móðurfélag Össurar. Félagið var stofnað með það að markmiði að styðja við frekari vöxt og hefur á undanförnum árum eflt starfsemi sína á fleiri sviðum heilbrigðistækni. Kjarninn hefur ávallt verið sá sami: nýstárlegar lausnir og framúrskarandi þjónusta við fólk með hreyfanleikaáskoranir.
Upphafið má rekja til ársins 1971, þegar Össur Kristinsson stoðtækjafræðingur stofnaði stoðtækjaverkstæði á Íslandi. Fyrsta varan var sílikonhulsa sem vakti strax athygli á erlendum mörkuðum og lagði grunninn að þeirri alþjóðlegu vegferð sem félagið hefur verið á síðan.
Í dag starfar Embla Medical í 40 löndum með um 4500 starfsmenn, þar af 700 manns í höfuðstöðvunum í Reykjavík.
Á meðal helstu áfanga í sögu félagsins má nefna skráningu á markað árið 1999, umfangsmikla alþjóðlega stækkun með kaupum á erlendum fyrirtækjum, og þróun hátæknilausna sem hlotið hafa fjölda alþjóðlegra verðlauna. Rannsóknir og vöruþróun hafa ávallt verið í forgrunni, og á Embla Medical nú yfir 2.100 skráð einkaleyfi – fleiri en nokkuð annað íslenskt fyrirtæki á sviði lífvísinda.
Tekjur félagsins hafa vaxið jafnt og þétt og meira en tvöfaldast á síðustu tíu árum – úr 58,5 milljörðum króna árið 2014 í 118 milljarða árið 2024. Meirihluti tekna kemur frá Bandaríkjunum og Evrópu og vaxandi hluti frá Asíumörkuðum.
Þessi mikli vöxtur byggir á stöðugum fjárfestingum í rannsóknum og þróun, þar sem sjálfbærni og nýsköpun eru í forgrunni. Embla Medical hefur einsett sér að bæta lífsgæði fólks með sérhæfðum heilbrigðislausnum og tryggu aðgengi að hágæða þjónustu um allan heim.
Útflutningsverðlaunin eru því viðurkenning á þeirri alþjóðlegu sókn og framsýni sem hefur einkennt starfsemi félagsins í meira en hálfa öld.
Um útflutningsverðlaunin
Útflutningsverðlaunin eru veitt til að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og heiðra fyrirtæki sem hafa skarað fram úr í alþjóðlegri sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu. Við mat á verðlaunahafa er horft til verðmætisaukningar útflutnings, hlutdeildar hans í heildarsölu, nýrra markaða o.fl.
Verðlaunin eru nú veitt í 37. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrri verðlaunahafa eru Íslensk erfðagreining, Trefjar, Icelandair, Bláa lónið, Marel og Kerecis.
Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni Sif Gunnarsdóttir frá embætti forseta Íslands, Magnús Þór Torfason, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands og Hildur Árnadóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á kostnaði og framkvæmd við verðlaunaveitinguna.