Íþróttamenn í Team Össur áberandi í nýrri Netflix mynd

Össur
03-09-2020
News
Ntando Mahlangu - Team Össur meðlimur

Nýlega frumsýndi Netflix myndina Rising Phoenix, sem fjallar um Ólympíuleika fatlaðra. Íþróttamenn sem tilheyra úrvalsliðinu Team Össur og nota gervifætur frá Össuri eru í áberandi hlutverkum í myndinni.

Myndin segir frá sögu leikanna sem voru fyrst haldnir fyrir nokkra fatlaða hermenn skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar en eru nú einn af stærri íþróttaviðburðum í heimi. Leikarnir áttu að hefjast 25. ágúst 2020 í Tókýó en bæði Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra var frestað fram á næsta sumar vegna COVID-19. Keppendahópur frá Íslandi hefði komist í hóp ólympíufara fyrir leikana í ár en þeir þurfa nú aftur að ná lágmörkum til að vinna sér inn keppnisrétt fyrir leikana í Japan árið 2021.

Þeir og aðrir unnendur leikanna hér á landi geta horft á Rising Phoenix sem er aðgengileg í íslenska Netflix.

Í myndinni er fjallað um baráttuna fyrir því að litið sé á Ólympíuleika fatlaðra sem jafnoka Ólympíuleikanna og rætt er við ýmsa fatlaða íþróttamenn sem hafa tekið þátt í leikunum í gegnum tíðina. Meðal annars er rætt við fjóra liðsmenn í Team Össur, hlauparana Jonnie Peacock, Jean-Baptiste Alaize og Ntando Mahlangu auk skylmingakonunnar Bebe Vio sem missti framhandleggina og fæturnar fyrir neðan hné þegar hún var 11 ára af völdum heilahimnubólgu.

Hér má sjá stiklu úr Rising Phoenix.

Um Ólympíuleika fatlaðra:
Fyrsti vísirinn að Ólympíuleikum fatlaðra voru litlir leikar sem haldnir voru í þorpinu Stoke Mandeville á Englandi í júlí 1948. Leikarnir, sem þá kölluðust einfaldlega Stoke Mandeville leikarnir, fóru fram samhliða Ólympíuleikunum í London en voru á þessum tíma ekki hluti af þeim. Þátttakendurnir, sem voru aðeins sextán talsins, voru breskir hermenn sem höfðu hlotið mænuskaða í síðari heimsstyrjöldinni. Þegar Stoke Mandeville leikarnir fóru næst fram, árið 1952, tóku fyrrverandi hermenn frá Hollandi einnig þátt og voru leikarnir þar með orðnir alþjóðlegir. Leikarnir urðu stærri að umfangi á næstu árum og vöktu athygli alþjóðasamfélagsins og Ólympíunefndarinnar. Fyrstu formlegu Ólympíuleikar fatlaðra voru svo haldnir í Róm árið 1960, beint í kjölfar Ólympíuleikanna sem haldnir voru í sömu borg. Þátttakendurnir voru 400 talsins frá 23 löndum. Á síðustu leikum voru þátttakendur 4.342 talsins og komu frá 159 löndum.