Össur hvetur frumkvöðla til að sækja um í Snjallræði
Viðskiptahraðall sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Snjallræði sem fer nú fram í þriðja sinn, en hægt er að sækja um þátttöku á vefsíðunni snjallraedi.is fram til 17. janúar nk.
Snjallræði er ætlað að styðja við samfélagslegar lausnir og frumkvöðlastarfsemi sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það geta verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu og vellíðan, bættu menntakerfi, endurnýtanlegri orku, samgöngumálum og matarsóun, svo dæmi séu tekin.
Allt að átta frumkvöðlateymi verða valin til þátttöku í átta vikna viðskiptahraðli sem hefur göngu sína þann 1. febrúar á næsta ári. Að verkefninu koma sérfræðingar frá MIT DesignX, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Svafa Grönfeldt, stjórnarmaður Össurar og ein af stofnendum MIT DesignX í Boston situr í ráðgjafanefnd Snjallræðis ásamt öðrum sérfræðingum.
Össur hefur um árabil unnið að nýsköpun og fjárfest í þróunarstarfi hér á landi. Fyrirtækið vinnur markvisst að verkefnum sem styðja við Heimsmarkmið 3, 5, 12 og 13 og áhersla á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð er viðhöfð í allri starfsemi fyrirtækisins.