Plast verður aftur plast
Össur tekur þátt í þjóðarátakinu Þjóðþrif
Þjóðþrif er landsátak á vegum Pure North Recycling til að vekja athygli á nauðsyn þess að Íslendingar sem þjóð taki ábyrgð á eigin endurvinnslu og tryggi að endurnýtanleg hráefni verði hluti af hringrásarhagkerfi Íslands.
Össur á Íslandi er eitt af 10 íslenskum fyrirtækjum sem taka þátt í þessu verkefni og felst í því að senda plast sem fellur til frá starfseminni í endurvinnslu til Pure North Recycling, og þar með tryggja að plast verði aftur plast.
Við erum byrjuð að senda ákveðnar tegundir af hörðu plasti sem fellur til hjá okkur í endurvinnslu til Pure North Recycling, t.d. plast hluti úr vörunum Rheo Knee og Proprio Foot. Næstu skref verða að senda mjúkt plast frá framleiðsludeildum í endurvinnslu til Pure North Recycling á næstu mánuðum ásamt öðru hörðu plasti sem fellur til.
Okkur er annt um umhverfið og munum halda áfram að finna leiðir til að taka þátt í hringrásarhagkerfinu.
Um Pure North Recycling
Pure North Recycling endurvinnur plast með umhverfisvænum orkugjöfum og er jarðvarminn þar í aðalhlutverki. Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Í endurvinnslunni er óhreinum plast úrgangi breytt í plast pallettur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum vörum úr plasti hér á landi og erlendis. Plastmengun er alvarlegt umhverfisvandamál af mannavöldum sem fer sívaxandi. Mikilvægt að er hver þjóð verði sjálfbær með sínu hringrásarhagkerfi og endurvinni sitt plast. Markmið endurvinnslunnar er að plast verði aftur að plasti og að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor en engin kemísk efni eru notuð við vinnsluna. Vinnsluaðferð Pure North Recycling er einstök á heimsvísu, umhverfisvæn og byggir á íslensku hugviti.