Össur með næst flestu einkaleyfin
Össur er í öðru sæti á lista Alþjóðahugverkastofnuninnar (WIPO) yfir flest einkaleyfi á heimsvísu í flokki almennrar hreyfihjálpartækni (e. conventional mobility assistive technology). Einkaleyfi fyrirtækisins í þessum flokki eru alls 448 talsins og fylgir Össur fast á hæla japanska bílaframleiðandans Toyota sem er með 462 einkaleyfi í sama flokki. Á meðal annarra fyrirtækja sem komast ofarlega á lista eru Panasonic, Honda og Suzuki.
Þetta kemur fram í nýútgefinni samantekt Alþjóðahugverkastofnunarinnar yfir útgáfu einkaleyfa á tímabilinu 1998-2019. Alþjóðahugverkastofnunin er sérhæfð undirstofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið starfandi frá árinu 1967. Markmið stofnunarinnar er að hvetja til sköpunar og stuðla að vernd hugverkaréttinda um allan heim.
Össur er einnig ofarlega á lista yfir fjölda einkaleyfa í flokki háþróaðra stoðtækja og gönguþjarka (e. advanced prosthetics and exoskeletons) og er í tólfta sæti yfir fjölda einkaleyfa í flokki hreyfihjálpartækni á þróunarstigi (e. emerging mobility assistive technologies). Í skýrslunni kemur fram að einkaleyfum í flokki háþróaðra stoðtækja, sem eru m.a. þrívíddarprentuð stoðtæki, gönguþjarkar og stoðtæki sem stýrt er með hugarafli, fjölgi nú að meðaltali um 24% á ári. Össur hefur verið brautryðjandi á þessu sviði og árið 2015 kynnti fyrirtækið sérstakan nema sem komið er fyrir í vöðva og tekur við taugaboðum frá heila. Neminn sendir taugaboðin samstundis áfram í gervifót, búinn gervigreind, sem framkvæmir hreyfinguna sem notandinn hafði ómeðvitað hugsað sér að framkvæma. Þegar tæknin var kynnt höfðu tveir Íslendingar þegar prófað slíka hugarstýrða fætur í rúmt ár.
Spá tvöföldun þeirra sem nota hjálpartæki
Í samantekt Alþjóðahugverkastofnunarinnar kemur fram að yfir einn milljarður manna þurfi nú á hjálpartækjum að halda og stofnunin spáir að talan muni tvöfaldast á næsta áratug, eftir því sem öldruðum í heiminum fjölgar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar: „Við erum afar þakklát fyrir viðurkenningu Alþjóðahugverkastofnunarinnar á framlagi Össurar á sviði nýrrar tækniþróunar sem hjálpar fólki með skerta hreyfigetu við dagleg störf. Í kjölfar stofnunar Össurar árið 1971, og eftir að við komum fyrst fram með nýja gerð sílíkonhulsu árið 1986, höfum við haldið áfram á braut nýsköpunar og lagt áherslu á að nýta nýjustu tækni til að gera fleira fólki kleift að njóta lífsins án takmarkana. Það er sérstaklega ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu á 50 ára afmæli Össurar og gefur okkur enn eitt tilefnið til að fagna. Jafnframt hvetur hún okkur til að halda áfram að þróa fyrirtækið og þær tækninýjungar sem starfsfólk okkar hefur staðið fyrir.“
Skýrsla WIPO: https://www.wipo.int/edocs/pubdocs/en/wipo_pub_1055_2021.pdf