Össur hf. hlýtur Teninginn fyrir hönnun og þróun á AeroFit

Össur
17-11-2023
News

Aerofit frá Össuri hlaut Teninginn 2022, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, sem afhentur var við hátíðega athöfn á Degi verkfræðinnar í dag. AeroFit lausnin er bylting fyrir stoðtækjanotendur en með klínískum prófunum hefur verið sýnt fram á að hún dregur úr rakasöfnun sem er eitt stærsta vandamál stoðtækjanotenda í dag.

„AeroFit lausnin byggir á einstakri nýsköpun og hugverki. Verkefnateymi Össurar má vera stolt af þessari afurð sem mun bæta lífsgæði stoðtækjanotenda á heimsvísu,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar.

Hita- og rakamyndun innan hulsu er áskorun fyrir marga. Rakasöfnun inni í hulsu getur leitt til aukinnar hreyfingar á milli húðar og sílikonhulsu sem skapar óöryggi og og hættu á því að notandinn hrasi eða detti. Rakasöfnun hefur einnig neikvæð áhrif á húðina, þar sem óþægindi og sár geta myndast og orðið til þess að einstaklingurinn getur ekki notað stoðtækin sín. Þetta hefur talsverð neikvæð áhrif á lífsgæði.

Verkfræðiþáttur verkefnisins skiptist í þrjá verkhluta: hönnun og þróun vörunnar, klínískar prófanir til að sannreyna virkni vörunnar og þróun framleiðslubúnaðar. Framleiðslubúnaðurinn og stýrikerfið voru þróuð af Össuri samhliða því sem sílikonhráefnið var aðlagað og þróað að þrívíddarprentuninni. Öll teymin unnu náið saman að sameiginlegu markmiði: Að markaðssetja lækningatæki sem leysir eitt stærsta vandamál stoðtækjanotenda.

Teningurinn

Markmið Teningsins er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem verkfræðingar og tæknifræðingar vinna að. Viðurkenningin er veitt fyrir verkefnið í heild og er það eigandi (bakhjarl) verkefnisins sem hana hlýtur.