Össur á Nýsköpunarviku 2023
Össur tók þátt í Health Tech viðburði í tilefni af Nýsköpunarviku (Iceland Innovation Week) miðvikudaginn 24. maí síðastliðinn. Þar komu þrír íslenskir lykilaðilar saman á sviði nýsköpunar í heilbrigðistækni - ÖSSUR, NOX MEDICAL og CONTROLANT - á spennandi pallborðsumræðum á vinnustofu Kjarvals í Reykjavík. Frumkvöðlum, fjármögnunaraðilum, stefnumótendum og öðrum úr nýsköpunarsamfélagi heilbrigðistækni á Íslandi var boðið á viðburðinn.
Sérstakur gestur var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem opnaði viðburðinn með hvetjandi orðum um mikilvægi heilbrigðistækni á Íslandi. Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, forstjóri KLAK, stýrði umræðunni á milli Hildar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra rannsókna og þróunar hjá Össuri, Sveinbjarnar Höskuldssonar tæknistjóra og meðstofnanda Nox Medical og Gísla Herjólfssonar, forstjóra og meðstofnanda Controlant.
Þau notuðu tækifærið til að ræða um fortíð, nútíð og framtíð fyrirtækjanna og lögðu áherslu á mikilvægi þess að fagna árangurssögum NÝSKÖPUNAR. Einnig fóru þau yfir mikilvægi þess að breyta mistökum í tækifæri til að læra og verða betri í því sem við gerum!
Það sem stóð upp úr líflegum umræðum var sá sameiginlegi tilgangur sem knýr og hvetur okkur áfram dag frá degi - að bæta líf fólks og stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu.
Tatjana Latinovic, forstöðukona hugverkardeildar Össurar, tók einnig þátt í ‘misheppnuðum’ viðburði á vegum Hugverkastofu, No one becomes a bishop unbeaten - Of failures and mistakes in innovation, í Grósku föstudaginn 26. Maí.
Þetta var áhugaverður viðburður þar sem forsvarsfólk nokkurra nýsköpunarfyrirtækja talaði ekki um hvað allt væri frábært hjá þeim og hvernig áætlanir hafi gengið upp, heldur hvað mistókst, hvernig og af hverju og hvaða lærdóm þau drógu af mistökunum. Þátttakendur voru ásamt Tatjönu þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigríður Mogensen frá Samtökum Iðnaðarins, Ellen Bergsveinsdóttir frá Mink Campers, Borghildur Erlingsdóttir frá ISIPO, Guðmundur Árnason frá Controlant, Ásgeir Ásgeirsson frá Meniga og Sandra Jónsdóttir Buch frá Háskóla Íslands.