Össur á Íslandi og umhverfismál 2022

Össur
15-03-2023
News

Össur vinnur markvisst að því að minnka kolefnisspor fyrirtækisins og var kolefnishlutlaust fyrir Umfang 1, 2 og valið Umfang 3 árið 2022, eins og fyrir 2021. Árið 2022 skuldbatt Össur sig til að setja svokölluð Science-Based Targets til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bættist þar í hóp leiðandi fyrirtækja um allan heim sem setja sér markmið í samræmi við það sem loftlagsvísindin telja nauðsynlegt til að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C. Umfang kolefnisbókhalds Össurar árið 2022 náði til orkunotkunar, alls flutnings og dreifingar hráefna og vara, viðskiptaferða starfsmanna, bílaflotans og úrgangsmeðhöndlunar.

Starfsstöð Össurar á Íslandi er með vottað umhverfisstjórnkerfi samkvæmt ISO 14001:2015 og vinnur markvisst að stöðugum úrbótum til að bæta frammistöðu sína ár hvert. Niðurstöður ársins 2022 sýna að stærstu losunarþættir starfseminnar eru inn- og útflutningur, og viðskiptaferðir starfsmanna, sem samanlagt var 93% af heildarlosun Össurar á Íslandi. Vegna áskorana í aðfangakeðjunni eftir COVID-19 faraldurinn jókst flugflutningur á hráefnum og vörum um 15%, sem leiddi til 35% aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda frá inn- og útflutningi miðað við árið 2021.

Langtíma markmið Össurar á Íslandi er að enginn úrgangur frá starfseminni fari í urðun árið 2030. Heildarmagn úrgangs frá starfsemi Össurar á Íslandi jóks um 14% miðað við árið 2021 vegna aukinnar framleiðslu og hlutfall úrgangs sem var endurunninn eða endurnýttur var 68% árið 2022.

Nánari upplýsingar um frammistöðu Össurar í umhverfismálum má finna í sjálfbærniskýrslu Össurar sem má finna á alþjóðlegum vef fyrirtækisins.