Össur á Íslandi og loftslagsmál
Össur vinnur markvisst að því að minnka kolefnisspor fyrirtækisins og mun verða kolefnishlutlaust árið 2021, á 50 ára afmæli fyrirtækisins. Össur er með starfsemi í yfir 30 löndum með um 3500 starfsmenn, þar af 500 á Íslandi.
Starfsstöð Össurar á Íslandi er þátttakandi í verkefni FESTU og Reykjavíkurborgar, og setti sér markmið árið 2016 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni um 50% árið 2020, miðað við árið 2015. Stærstu losunarþættir starfseminnar eru inn- og útflutningur, og viðskiptaferðir starfsmanna.
Niðurstöður ársins 2020 sýna að losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Össurar á Íslandi dróst saman um 28%, miðað við árið 2015. COVID-19 heimsfaraldurinn hafði sín áhrif á starfsemina, rétt eins og hjá öðrum fyrirtækjum um allan heim. Samkomutakmarkanir urðu til þess að losun gróðurhúsalofttegunda frá viðskiptaferðum dróst saman um 80% miðað við árið 2019. Auk þess dróst heildarmagn úrgangs saman um 16%.
Össur á Íslandi hóf samstarf við íslenska plast endurvinnslu fyrirtækið Pure North Recycling árið 2020 og er þátttakandi í landsátakinu Þjóðþrif. Verkefnið felst í því að senda plast sem fellur til frá starfseminni í endurvinnslu til Pure North Recycling. Hlutfall úrgangs sem var endurunninn eða endurnýttur var 47% árið 2020, og hélst óbreytt frá árinu 2019.
Nánari upplýsingar um frammistöðu Össurar í umhverfismálum má finna í skýrslum um samfélagsábyrgð hér.